Þegar Magnús Geir Þórðarson tók við stjórn Leikfélags Akureyrar í apríl árið 2004 var staða leikhússins erfið. Í fjögurra ára stjórnartíð Magnúsar var rekstri félagsins snúið við á nánast öllum sviðum: Aðsókn jókst gríðarlega, skuldir voru greiddar upp og varasjóður myndaður og fjöldi áskriftargesta hefur margfaldast. Staðan í dag er sú að ekkert leikhús á landinu státar af fleiri kortagestum en LA. Auk þess hafa sýningar leikhússins almennt hlotið góða dóma og mikill meðbyr einkennt starfsemi þess.

Í vetur var kunngjört að Magnús Geir yrði ráðinn leikhússtjóri Borgarleikhússins. Magnús tekur formlega við stöðunni 1. ágúst næstkomandi, en hann hefur þrátt fyrir það þegar hafið störf hjá leikhúsinu. Blaðamaður Viðskiptablaðsins ræddi við Magnús Geir um galdurinn að baki góðum rekstri leikhúsa og áherslur hans í nýju starfi. Magnús Geir er einn af þeim stjórnendum í menningargeiranum sem hafa kosið að læra aðferðir stjórnenda í viðskiptalífinu, en hann lauk MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005 og nýtti sér námið rækilega þegar kom að breytingastjórnun hjá Leikfélagi Akureyrar.

„Það er stundum eins og fólk haldi að það hljóti að gilda allt önnur lögmál um leikhús en önnur fyrirtæki, en það er alls ekki svo að mínu mati. Þetta er auðvitað öðruvísi ‘vara’ en önnur fyrirtæki framleiða, en það eru samt sömu grunnviðmið í stjórnun og rekstri. Varan sem við erum að skapa, leiksýningin, er hins vegar oft töfrum líkust og sköpunarferlið lífrænt og einstaklega skemmtilegt,“ segir Magnús Geir.

_____________________________________

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins er ítarlegt viðtal við Magnús Geir. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .