*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 27. september 2010 22:27

Hallarbylting hjá Vinstri grænum í Reykjavík

Ein níumenninganna kjörin formaður Vinstri grænna í Reykjavík

Ritstjórn

Sólveig Anna Jónsdóttir var í kvöld kjörin nýr formaður Vinstri grænna í Reykjavík á aðalfundi félagsins sem nú stendur yfir.

Sólveig, sem er ein níumenninganna sem hefur verið ákærð fyrir að ráðast á Alþingi, bauð sig fram gegn Andrési Inga Jónssyni,  aðstoðarmanni Álfheiðar Ingadóttur á meðan að hún var heilbrigðisráðherra. Uppstillingarnefnd hafði gert tillögu um Andrés sem nýjan formann. Því er kosning Sólveigar í embættið gegn tillögu ríkjandi afla í Vinstri grænum.

Kolbrún Halldórsdóttir bauð fram Sólveigu

Það var Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrum  Alþingismaður og umhverfisráðherra, sem bauð fram Sólveigu. Hún sigraði síðan Andrés með miklum yfirburðum, en hún fékk 133 atkvæði gegn 57. Margfalt fleiri mættu á fundinn en búist hafði við og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þá fjölgaði nýskráningum í flokkinn gríðarlega á síðustu dögum. Viðmælendur Viðskiptablaðsins í hópi ríkjandi valdakjarna Vinstri grænna í Reykjavík kölluðu atburði kvöldsins skipulagða hallarbyltingu.

Nú standa yfir kosningar til stjórnar Vinstri grænna í Reykjavík. Uppstillinganefnd hafði gert tillögu um hverjir ættu að sitja þar en búið var að bjóða fram aðra á móti. Á meðal þeirra sem boðin var fram er Brynja Halldórsdóttir, formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn aðild að ESB.