Hlutirnir munu ekki breytast fyrr en karlar taka undir það að nauðsynlegt sé að auka fjölbreytni í stjórnum og jafna kynjahlutföllin. Þetta segir Hallbjörn Karlsson fjárfestir sem hefur verið virkur í umræðunni um lög um kynjahlutfjöll í stjórnum fyrirtækja. Hann segir nauðsynlegt að eigendur og stjórnendur vinni markvisst í því að koma konum áfram innan fyrirtækja.

„Það er í sjálfu sér dapurlegt að það þurfi lög til að jafna kynjahlutföll í stjórnum. Ef þú gefur þér hins vegar að konur séu jafn öflugar og karlar þá sýna tölurnar það svart á hvítu að val í stjórnir fer ekki fram án tillits til kyns. Það eru að sjálfsögðu margar ástæður fyrir því að konur hafa ekki náð jafn langt og karlar en ef áhugi er á því að breyta þeirri staðreynd þarf eitthvað að gera. Og lögin eru gott skref í þá átt,“ segir Hallbjörn og bendir á að t.d. séu fleiri forstjórar í skráðum fyrirtækjum á Íslandi sem heita Finnur en eru konur.

Lagasetningin er því fyrst og fremst leið til að breyta hugsunarhættinum þannig að innan tíðar muni öllum, konum sem körlum, finnast undarlegt þegar í stjórnum og æðstu stjórnendastöðum fyrirtækja sitja eingöngu karlar rétt eins og það væri óeðlilegt að hafa þar eingöngu verkfræðinga eða lögfræðinga, segir Hallbjörn. „Aðalmálið er að hugarfarið breytist hægt og rólega en lögin stuðla að þeirri breytingu að konur komist inn í stjórnir. Þegar fram í sækir mun fólki finnast undarlegt að sjá ársskýrslur eins og hjá HB Granda þar sem sex æðstu stjórnendur eru allir karlar eða hjá Marel þar sem æðstu stjórnendur eru 11 karlar og ein kona. Fólki mun einn daginn finnast það jafn skrítið og að ef reykt væri inni á skrifstofum.“

Hallbjörn tekur undir að þetta eigi að vera tímabundin aðgerð en ekkert liggi á. „Það þarf ekkert að flýta sér að taka hana af. Hún hjálpar og breytir hugarfari. Það má ekki aftengja hana fyrr en það sé orðið skýrt að þróunin muni ekki snúast til baka ef lögin verða numin úr gildi. Það liggur því ekkert á í þeim efnum.“