Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði við fréttaveituna Bloomberg í símaviðtali í dag að aðild Íslands að evrunni væri í athugun og yrði til umræðu á næstu árum. "Það er ljóst að það er ekki auðvelt að reka smátt hagkerfi og smáan gjaldmiðil á stórum markaði," var haft eftir Halldóri.

Halldór tjáir sig um efnahagsástandið á Íslandi og segir meðal annars að hér sé engin kreppa í aðsigi heldur muni vöxtur halda áfram, þótt eitthvað muni hægja á honum.

En Bloomberg telur þessi ummæli ekki fréttnæmust, heldur hefur sem fyrirsögn: "Forsætisráðherrann segir að Ísland kunni að sækja um aðild að evrunni."

"Ummæli forsætisráðherrans lykta af taugaveiklun," (e. panic) er síðan haft eftir Monicu Flan, sérfræðingi í gjaldeyrisviðskiptum hjá RBC Capital Markets í London. Á hinn bóginn telur Monica að aðild Íslands að evrunni hefði ýmsa kosti í för með sér, svo sem minni spákaupmennsku og meiri stöðugleika.

Fram kemur í frétt Bloomberg að enginn gjaldmiðill í heimi hafi fallið jafnmikið í verði frá áramótum og íslenska krónan, eða 19% gagnvart evru og 15% gagnvart dollara.

Vitnað er í ummæli Davíðs Oddssonar þess efnis að skynsamlegra sé fyrir Íslendinga að hafa sjálfir stjórn á peningamálum, enda myndi seðlabanki Evrópu ekkert tillit taka til aðstæðna á Íslandi: "Þeir væru mjög vitlausir ef þeir horfðu til Íslands og segðu: Við þurfum að gera eitthvað í þessu."

Halldór segir við Bloomberg að aðild Íslands að ESB og evrunni gæti orðið að veruleika á næstu fimm til tíu árum, "ef lausn finnst á fiskveiðivandanum".

Merkileg klausa um fiskveiðistjórnun er í frétt Bloomberg þar sem segir að Íslendingar séu andvígir sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, en sú stefna hafi að markmiði að koma í veg fyrir ofveiði með því að takmarka veiðar. Fréttastofan virðist þannig gefa í skyn að við Íslandsstrendur sé stunduð óheft rányrkja. Og ekki kemur heldur fram í fréttinni að fiskistofnar í Evrópu eru víða að hruni komnir þrátt fyrir "verndina".