*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 4. september 2017 09:09

Halldór Auðar ekki fram í borginni

Borgarfulltrúi Pírata, Halldór Auðar Svansson, hyggst ekki gefa kost á sér áfram í borgarstjórn fyrir flokkinn.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Halldór Auðar Svansson tilkynnti um það í gær að hann hyggðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í borgarstjórn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þetta tilkynnti hann um á aðalfundi Pírata í gær, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun var jafnframt aðalfundur Ungra pírata um helgina.

Á facebook síðu sinni fór hann yfir ákvörðun sína og sagði meðal annars að áherslur Pírata hafi skilað sér ágætlega á kjörtímabilinu.

„Einnig get ég verið stoltur af því að bókhald borgarinnar hefur verið opnað bæði á gagnvirkri gátt á vefnum og með útgáfu þess í formi opinna gagna. Allt eru þetta verkefni sem hafa notið góðs þverpólitísks stuðnings, sem er mjög mikilvægt upp á að þessar kerfisbreytingar verði varanlegar,“ segir Halldór Auðar en hann segir jafnframt að þó sitthvað mæli með því að hann haldi áfram til að fylgja þessari vinnu eftir, segir hann það ekki bráðnauðsynlega verða að vera hann sjálfur.

„Ég fór alltaf inn í þessa vinnu með það fyrir augum að vera í mesta lagi tvö kjörtímabil og meta eftir því sem á liði hvort ég treysti mér í tvö eða bara eitt. Ég tek hér strax fram að ég kem að sjálfsögðu til með að taka áfram virkan þátt í grasrótarstarfi Pírata. Ég er ekki að fara neitt nema úr borgarstjórn en það geri ég ekki fyrr en kjörtímabilinu lýkur. Í nafni heiðarleika og gagnsæis tilkynni ég þessa ákvörðun mína núna. Það eru spennandi tímar í vændum og ég mun miðla af minni reynslu til þeirra sem bjóða sig fram til að taka við keflinu.“