*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 25. febrúar 2021 14:16

Halldór Auðar kvartar undan Brynjari

Halldór Auðar telur framgöngu Brynjars Níelssonar brot á siðareglum alþingismanna og hefur kvartað til forsætisnefndar.

Ritstjórn
Sætta er ekki að vænta milli Brynjars Níelssonar og Halldórs Auðar Svanssonar.
Haraldur Guðjónsson

Halldór Auðar Svansson, frambjóðandi Pírata og sitjandi stjórnarmaður Íslandsdeildar Transparency International, hefur kvartað undan þingmanninum Brynjari Níelssyni við forsætisnefnd Alþingis vegna framgöngu sem hann telur brotlega við siðareglur alþingismanna.

Forsaga málsins er sú að á síðasta ári lagði Halldór Auðar fram kvörtun af sama meiði til forsætisnefndar vegna skrifa Brynjars á Facebook, en dró til baka eftir opinberlega afsökunarbeiðni Brynjars.

Í færslu þeirri gagnrýndi Brynjar þingmenn, „sem halda að þeir séu rannsóknardómarar", fyrir að heimta að mál séu tekin upp í þingnefnd þegar „upphlaupsliðið" rýkur upp til handa og fóta, og boða svo pólitíska samherja sína til fundar, og nefndi Halldór í því samhengi.

Líkti Brynjar því við að hann væri að alltaf að boða vini sína í Sambandi ungra sjálfstæðismanna á nefndarfundi.

Sætta ekki að vænta

Kvörtunin nú kemur til vegna athugasemdar Brynjars við færslu Halldórs Auðar á Facebook frá því í byrjun þessa mánaðar. Halldór Auðar deildi þá grein Brynjars um Spillingu og Gagnsæi sem Brynjar hafði birti á Viljanum.

Í færslunni segir Halldór Auðar að Brynjar hafi áður farið með róg í sinn garð vegna starfa hans fyrir félagasamtök, ýjað að því að þegar ég hef mætt fyrir hönd þeirra til að rekja umsagnir í boði þingnefnda sé ég að ganga einhverra annarlega erinda.

Í athugasemd mótmælir Brynjar þeirri fullyrðingu Halldórs Auðar, gagnrýnin hafi beinst að þingmönnunum, enda væri það ekki Halldóri að kenna þótt pólitískir samherjar óski eftir viðhorfum hans til að styðja sín eigin. Halldór Auðar telur að með þessu sé þingmaðurinn að endurtaka „dylgjur" sínar og að sætta sé greinilega ekki að vænta milli hans og þingmannsins.

Fer fram á rannsókn á fullyrðingum

Halldór telur framgöngu þingmannsins fela í sér brot á nokkrum liðum 5. greinar siðareglna alþingismanna, er fjallar um meginreglur um hátterni þingmanna, auk þess sem framganga hans brjóti í bága við 7. grein reglnanna um að þingmenn skuli í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu, og loks brjóti framganga hans 8. grein, er lýtur að kurteisi þingmanna í garð gesta þingsins.

Fer Halldór Auðar fram á að erindi hans verði sett í viðeigandi farveg og að því ferli fylgi rannsókn á fullyrðingum þingmannsins, þar sem farið verði yfir þau tilfelli þar sem hann hafi mætt sem gestur á nefndarfundi, af hvaða tilefni það hefur verið og hvernig boðun hefur þar verið háttað. Telur hann þetta nauðsynlegt til að hreinsa mannorð sitt af þeim „ávirðingum" sem Brynjar hafi kosið að setja fram á opinberum vettvangi í krafti valdastöðu sinnar, í óþökk hans.

Brynjar gagnrýnt Íslandsdeild Transparency International

Brynjar gagnrýndi Íslandsdeild Transparency International og túlkun deildarinnar á spillingarvísitölu samtakanna í aðsendri grein á Vísi í vikunni, en Íslandsdeildin hefur sagt stöðu Íslands enn versna samkvæmt alþjóðlegum mælingum á spillingu, þrátt fyrir að ekki hafi verið marktækur munur á mældri spillingu hér á landi í áraraðir.

Þar gagnrýnir hann jafnframt aðkomu Þorvaldar Gylfasonar að mati á spillingu á Íslandi fyrir hönd Bertelsmann Foundation, einnar þeirra sjö stofnanna sem spillingarvísitala Transparency International byggir á, en Bertelsmann hefur metið spillingu á Íslandi mun verri en aðrar stofnanir.

Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um þróun spillingarvísitölu Íslands og benti á að breytingar hennar hafi ekki verið marktækar í fréttaskýringu. Í fréttaskýringunni er sýnt með myndrænum hætti hve mikið stigamat Bertelsmann hefur skorið sig úr í samanburði við stigamat annarra stofnana undanfarin ár.

Þá er bent á að ekki sé rökstuðning að finna fyrir stiglækkandi stigagjöf Bertelsmann í SGI skýrslu stofnunarinnar, en á dögunum tók Viðskiptablaðið saman ýmsar viðeigandi úrbætur sem orðið hafa hér á landi sem ekki er fjallað um í skýrslunni.