*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 25. mars 2021 20:43

Halldór botnar lítið í ásökunum Ragnars

„Sem fyrr lætur formaðurinn staðreyndir ekki flækjast fyrir sér að óþörfu," segir Halldór Benjamín um ummæli Ragnars Þórs.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, við undirritun lífskjarasamninganna árið 2019.
Haraldur Guðjónsson

Hún var furðuleg sendingin frá formanni VR í fjölmiðlum fyrr í vikunni. Þar kemst hann að þeirri ævintýralegu niðurstöðu að meintur áróður fjársterkra afla og stórfyrirtækja sé um að kenna því bakslagi sem við upplifum nú í baráttunni við COVID19,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í grein sem hann ritar á Vísi og ber titilinn „Hver er fljótfær?“.

Halldór Benjamín vísar þar líklega til viðtals sem Stundin tók við Ragnar Þór þar sem formaður VR hélt því fram að ríkisstjórnin hafi breytt sóttvarnarreglum á landamærunum vegna þrýstings frá ferðaþjónustunni og öðrum í atvinnulífinu sem leitt hafi af sér fjölgun smita síðustu daga.

„Það er alveg ljóst mál að stór fyrirtæki eins og til dæmis Icelandair og stærri aðilar ferðaþjónustunnar sem hafa þrýst á eftir opnun landamæra í stað þess að bíða í tvo til þrjá mánuði á meðan að landið er bólusett bera hér mikla ábyrgð,“ sagði Ragnar Þór meðal annars.

Halldór Benjamín bendir hins vegar á að reglugerðarbreytingin sem Ragnar Þór vísar til hafi ekki enn tekið gildi og geti því ekki skýrt fjölgun smita.

„Formaðurinn fullyrðir að smit, sem reyndar hófu að greinast 23. mars síðastliðinn, séu á einhvern hátt tengd ákvörðunum um smávægilegar breytingar á fyrirkomulagi á landamærum Íslands sem fyrirhugaðar eru. Þær breytingar áttu reyndar ekki að koma til framkvæmda fyrr en annars vegar á morgun og hins vegar 1. maí, rúmum mánuði eftir að þær áttu að hafa hrundið af stað fjórðu bylgju faraldursins hér á landi. Sem fyrr lætur formaðurinn staðreyndir ekki flækjast fyrir sér að óþörfu,“ segir Halldór Benjamín og bætir við: 

„Í viðtalinu heldur formaðurinn því enn fremur fram að „fljótfærni fáeinna aðila” – og nefnir Icelandair í því samhengi - hafi orðið til þess að búið sé að tefla ferðasumrinu í hættu. Hagsmunapot hafi ráðið för.Ekki er gott að segja hvernig hagsmunir flugfélagsins ættu að ríma við þessa tilgátu formannsins, en nýlegar og opinberar deilur hans við fyrirtækið varpa ef til vill ljósi á raunverulegt markmið formanns VR með viðtalinu,“ segir hann.

Málflutningur Ragnars Þórs sé fáum til gagns og stuðli allra síst að upplýstri umræðu. „Ef til vill skorar svona málflutningur, líkt og formaðurinn gerðist sekur um í vikunni, stundarpunkta hjá einhverjum hópi. En til lengri tíma, og nú á ögurstundu, er hreinlega verið að vinna samfélaginu tjón. Nú er ekki tíminn til ábyrgðalausra upphlaupa heldur yfirvegaðra og málefnalegra umræðna um sameiginlegan vágest. Hagsmunir okkar allra eru undir því að takist vel til. Eftir stendur spurningin um hver það er sem raunverulega hefur gerst sekur um fljótfærni?,“ segir Halldór í greininni.