Þeir sem sækja ráðstefnu í Hörpu vilja nánast búa þar á sama tíma. Þetta segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu. Hann er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær þar sem hann fer yfir reksturinn. Hann er m.a. spurður um lóðirnar í kringum Hörpu og hugsanleg áhrif af hótelinu sem enn hefur ekki risið.

„Já, hótelið órisna í holunni við hliðina á okkur," svarar Halldór. „Ég hef ekki viljað horfa á þetta sem úrslitaatriði í því sem snýr að rekstri hússins sjálfs, við verðum bara að standa okkur. Mér finnst stundum fullmikið hafa verið gert úr því til dæmis í ljósi alls þess gistihúsnæðis sem er í næsta nágrenni við okkur. Því er hins vegar ekki að neita að hótel hér myndi verða okkur mjög gagnlegt. Margir ráðstefnugestir vilja nánast búa í ráðstefnuhöllinni á meðan á viðburðum stendur, og það yrði hægt risi þarna hótel."

Hvernig gengur ykkur að sækja ráðstefnur í Hörpu - til dæmis að utan?

„Það hefur orðið mikil framför í því. Það eru fimmtán alþjóðlegar ráðstefnur í Hörpu á þessu ári sem er töluverð aukning frá síðasta ári. Við sækjum mikið af þessu sjálf en svo erum við líka aðili að ráðstefnuskrifstofunni Meet in Reykjavik. Við auðvitað njótum kostaÍslands , til dæmis þessarar heppilegu legu mitt á milli Evrópu og Ameríku," segir Halldór sposkur.

Hvað ríkisframlagið snertir í þessu samhengi bendir Halldór á að erlendu gestirnir verji töluverðum fjármunum hér á landi. „Ein fyrsta ráðstefnan sem ég varð vitni að í Hörpu var ráðstefna norrænna vegagerðarmanna sem haldin var hér í júní í fyrra. Þá voru um 800 gestir hér í fimm daga. Ef reiknað er með að hver ráðstefnugestur eyði, að öllu meðtöldu, um 60 þúsund krónum hér á dag, einsog Hagfræðistofnun HÍ hefur áætlað, má reikna með að hér hafi 300 milljónir komið inn í hagkerfið. Af þeim fær Harpa kannski 15. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Þess vegna halda borgir víða um heim úti húsum af þessu tagi, og líta á það nánast sem markaðskostnað.“

Ítarlega er rætt við Halldór Guðmundsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.