Halldór J. Jörgensson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptaþróunar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu App Dynamic ehf. Halldór mun sjá um að þróa nýjar leiðir að markaði og gera hugbúnað App Dynamic aðgengilegan fyrir fleiri markhópa.

App Dynamic var stofnað árið 2009 og þróar hugbúnað sem eykur notagildi vinsælla tækja.  Á meðal þess sem fyrirtækið hefur hannað er forritið AirServer en það gerir notendum kleift að streyma tónlist, myndböndum eða öðru efni jafnt úr Apple sem PC-tölvum í þráðlaus tæki sem nota iOS-stýrikerfi Apple. Milljónir manna nota nú AirServer hugbúnaðinn til að tengja tölvur þráðlaust við sjónvarpsskjái, svo sem í fundarherbergjum fyrirtækja, verslunarrýmum, hótelum, skólastofum eða í stofunni heima. Netmiðillinn TUAW valdi AirServer sem eitt af tíu bestu smáforritum síðasta árs. Af öðrum vörum fyrirtækisins má t.d. nefna Remote HD og Air Media Center.

Halldór J. Jörgensson hefur starfað innan upplýsingatæknigeirans í aldarfjórðung. Halldór starfaði m.a. hjá þýska hugbúnaðarrisanum Software AG í átta ár og hjá Microsoft í í rúman áratug, þar sem hann gegndi stöðu viðskiptaþróunar í Evrópu, framkvæmdastjóra á Íslandi og nú síðst sölu og markaðsstjórn Surface spjaldtölvu Microsoft á heimsvísu..

Forstjóri App Dynamic er Pratik Kumar og hefur hann í gegnum tíðina þróað fjölda forrita sem slegið hafa í gegn í App Store verslun Apple.  Á annan tug starfsmanna starfa hjá fyrirtækinu í dag en það hefur höfuðstöðvar sínar á 19. hæðinni í Turninum í Kópavogi.