Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar jákvæðar í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja  í íslensku efnahagslífi. Halldór telur útgáfu styttri ríkisbréfa munu glæða skuldabréfamarkaðinn og hafa jákvæð áhrif á vaxtamyndun á markaði.

„Ég fagna því einnig að fá aukið lausafé til að greiða fyrir lánveitingum á húsnæðislánamarkaði. Þær aðgerðir eru í takt við marga seðlabanka víðsvegar um heim, því að alþjóðlega lausafjárkreppan hefur oft komið fyrst niður á húsnæðismarkaðnum,“ segir Halldór í samtali við Viðskiptablaðið.

„Hins vegar má deila um þeim aðferðum sem er beitt. Ég er einn þeirra sem taldi það óþarfa að hækka lánsupphæðir og veðhlutföll Íbúðalánasjóðs á sínum tíma þegar opnað hafi verið fyrir húsnæðislán á markaði. Þrátt fyrir að deila megi um útfærsluna er grunnhugsunin jákvæð og hjálpar við þær sérstöku aðstæður sem eru uppi,” segir Halldór.

„Hér er um að ræða sérstakar aðstæður sem við höfum ekki glímt við áður. Í slíku árferði þarf stundum að grípa til óvanalegra aðgerða.

Halldór segir að fram hafi komið hjá ríkisstjórninni að vilji standi til þess að eiga gott samstarf við Samtök fjármálafyrirtækja um útfærslu þessara mála til langs tíma.

„Það þarf að finna varanlegan flöt á góðri verkaskiptingu ríkisins og viðskiptabanka á húsnæðismarkaði.” Þannig sé gripið til sérstakra aðgerða á sérstökum tímum, og þær verði að skoða í ljósi hvenær til þeirra er gripið.

„Aðgerðirnar breyta þó engu um skoðun og afstöðu mína til þess að langtímalausnin á húsnæðismarkaði felst í góðri verkaskiptingu ríkis og banka, og að ríkið eigi að draga sig út úr almenna hluta þessa markaðar í áföngum.”