Halldór J. Kristjánsson, fyrrum bankastjóri Landsbankans, segir í yfirlýsingu til fjölmiðla hvorki hafa átt hlut að né persónulega hagsmuni að þeim ákvörðunum sem eru til umfjöllunar. Skilanefnd Landsbankans tilkynnti í dag að höfðað yrði mál á hendur fyrrum stjórnenda bankans vegna vanrækslu í rekstri bankans.

Yfirlýsing frá Friðjóni Erni Friðjónssyni lögfræðingi Halldórs J. Kristjánssyni:

„Í tilefni af umfjöllun fjölmiðla um kröfur slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. á hendur umbjóðanda mínum Halldóri J. Kristjánssyni er rétt að fram komi:

1. Umbjóðandi minn telur að ekki sé grundvöllur til kröfugerðar í þeirri mynd sem fram er komin. Óskað hefur verið eftir samstarfi við slitastjórn til að yfirfara nánar þau tvö mál sem slitastjórn hefur gert að álitaefni með bréfum dags. 12. nóvember sl.

2. Fyrir liggur að Landsbanki Íslands keypti ábyrgðartryggingu í Bretlandi fyrir starfsfólk sitt og hefur slitastjórn bankans tilkynnt hlutaðeigandi tryggingafélagi að hún telji að kröfurnar falli undir trygginguna. Samkvæmt tryggingarskilmálum ber að hafa samráð við tryggingarfélagið áður en andsvör eru veitt. Ekki er því unnt á þessu stigi málsins að ræða einstök efnisatriði opinberlega.

3. Umbjóðandi minn átti hvorki hlut að né persónulega hagsmuni að þeim ákvörðunum sem eru til umfjöllunar. Hagsmunir hans voru alfarið þeir sömu og bankans sjálfs og voru allar ákvarðanir teknar með hagsmuni bankans að leiðarljósi.

Virðingarfyllst,

Fyrir hönd Halldórs J. Kristjánssonar“