Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alvogen, er orðinn einn af tuttugu stærstu hluthöfum Sýnar, móðurfélags Vodafone, Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, með 0,77% hlut samkvæmt uppfærðum hluthafalista félagsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fer Halldór og félög á hans vegum samtals með um 2% hlut í Sýn, sem er um 400 milljónir króna að markaðsvirði.

Með Halldóri í hópi stærstu hluthafa Sýnar er fyrrum samstarfsmaður hans til margra ára, Róbert Wessman, en þeir tveir hafa eldað grátt silfur á síðustu mánuðum. Róbert fer með 46% hlut félaginu Frostaskjól sem á 2,53% hlut í Sýn.

Halldór lét af störfum hjá Alvogen í byrjun ársins og sakaði Róbert opinberlega meðal annars um morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir á hendur meintra óvildarmanna hans. Alvogen gaf í kjölfarið út að eftir rannsókn á ásökunum væri niðurstaðan að þær ættu ekki við rök að styðjast en félagið hefur stefnt Halldóri fyrir meint trúnaðarbrot í starfi.

Viðskiptablaðið sagði frá því í á dögunum að Halldór hafi auglýst 931 fermetra einbýlishús sitt við Sunnuflöt 48 í Garðabæ til sölu.

Sjá einnig: Halldór setur 932 fermetra höll á sölu

Meðal annarra breytinga á listanum er að lífeyrissjóðurinn Gildi, stærsti hluthafi Sýnar, seldi í síðasta mánuði 1,1% hlut í fyrirtækinu fyrir rétt undir 200 milljónir króna ef miðað er við meðalgengi Sýnar í nóvember. Gildi fer í dag með 11,3% hlut í Sýn.