„Já, nú er ég að hætta,“ segir Halldór Óskar Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir starfslok sín í fullri sátt við eigendur fyrirtækisins. Halldór gerir ráð fyrir að hann fari endanlega frá eftir næstu viku þegar búið sé að ganga frá ákveðnum hlutum. "Ég verð þarna eitthvað í næstu viku og svo er þetta sennilega bara búið hjá mér," segir Halldór. Greint var frá því á eirikurjonsson.is fyrr í dag að Halldór sé hættur störfum.

Halldór segir ekki ákveðið hvað hann muni taka sér fyrir hendur í framhaldinu. „Ég er bara að skoða í kringum mig núna. Nú er bara að setja auglýsingu í blöðin," segir Halldór léttur í bragði. „Það er ýmislegt sem er í boði en maður  tekur sér góðan tíma í að skoða það.“

Halldór var ráðinn til Bauhaus árið 2008 en beðið var með opnun verslunarinnar þar til eigendur Bauhaus töldu efnahagsástandið hér á landi vera nægilega gott. „Þetta er búið að vera skemmtilegt brölt," segir Halldór. Aðspurður um hvort einhver sérstök ástæða sé að baki starfslokum hans segir Halldór að miklar breytingar hafi orðið á rekstrinum. „Nei. Þetta var þannig að ég var að byggja upp fyrirtækið og koma því á fót. Eftir það hefur verið mikil breyting á þessum rekstri og þetta er orðið meira að rútínu.  Mínir styrkleikar liggja mest í hinu, að byggja upp og  vinna í nýjum verkefnum,“ segir Halldór.