Halldór Óskar Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi.

Halldór var áður framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum, en hann er rekstrarhagfræðingur að mennt og hefur lokið MBA- gráðu frá European University í Sviss.

„Starfið leggst ákaflega vel í mig og þetta er mikil áskorun,“ segir Halldór, en hann tekur formlega við starfinu í lok ágúst nk.

„Ráðningar standa yfir og senn verður búið að ráða í allar lykilstöður, en samtals er gert ráð fyrir að starfsmenn verði 150 talsins.“

Á morgun, fimmtudag, verður hornsteinn lagður að verslunarhúsnæði Bauhaus í Úlfarsfelli í Reykjavík. Framkvæmdir hófust haustið 2007.

Verslunin verður sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum eða 22 þúsund fermetrar að flatarmáli og með yfir 120 þúsund vörutegundir.

Að sögn Halldórs er fyrirhugað að opna verslunina 31. desember nk.

Bauhaus rekur nú fleiri en 220 verslanir í 15 löndum.