„Það er verið að setja upp peningadælu til að dæla peningum, mest af landsbyggðinni.“

Þetta segir Halldór Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við Morgunblaðið í morgun spurður um áhrif stjórnarfrumvarpa um fiskveiðistjórn og veiðigjöld.

Þá kemur fram að sérfræðihópur sem atvinnuveganefnd Alþingis fékk til að meta áhrif sjávarútvegsfrumvarpanna telur að samþykkt þeirra, einkum álagning veiðigjalds, myndi hafa mikil áhrif á byggðaþróun.

„Ég reiknaði sjálfur út áhrif veiðigjaldsins, út frá upplýsingum sem liggja fyrir um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum 2009, og fann út að það myndu fara 1,4 milljarðar út af Vestfjörðum, frá fyrirtækjum sem rekin voru með 800 milljóna króna tapi,“ segir Halldór.

Í Fréttablaðinu er einnig fjallað um sjávarútvegsfrumvörpin í viðtali við Steingrím J. Sigfússon, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra. Þar segir hann útvegsmenn stunda mikinn hræðsluáróður, ekki hafi staðið til að setja fjölda útgerðarfyrirtæki „á hausinn“ eins og það er orðað þar og að ef sjávarútvegurinn ráði ekki við það að leggja meira til samfélagsins núna þá muni hann aldrei gera það.