*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 20. apríl 2021 09:02

Halldór svarar Árna

„Vonandi fáum við fleiri „ástarbréf“ frá Árna Harðarsyni lögfræðing,“ segir Halldór Kristmannsson í yfirlýsingu.

Ritstjórn
Halldór Kristmannsson, Árni Harðarson og Róbert Wessman

Halldór Kristmannsson hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna greinar Árna Harðarsonar, aðstoðarforstjóra Alvogen. Halldór segir skrif Árna varla svaraverða og skilur greinina sem nokkurskonar „ástarbréf“ til Róberts Wessman, forstjóra Alvogen og Alvotech.

Halldór segir reiðipósta Árna ekki nýja af nálinni en á árinu 2015 hafi hann borið Matthías Johannessen þungum sökum í Viðskiptablaðinu en þeir Árni og Róbert enduðu svo með að greiða honum um 1.400 milljónir króna í skaðabætur. 

Halldór segist hafa beðið lengi eftir málefnalegu svari frá stjórnum Alvogen og Alvotech og Róberti sjálfum. Hann hafi ítrekað óskað eftir því sjá „rannsóknarskýrsluna“ eða einhverja niðurstöðu vegna ábendinga sinna á hendur Róbert, en fái engin svör.

„Ég tel að slökkviliðið hjá Alvogen undir stjórn Árna og Róberts hafi í raun aldrei gert neina rannsóknarskýrslu og engin lögfræðistofa fáist til að setja nafn sitt við slíkan hvítþott. Við Árni höfum áður þurft að verjast ásökunum á hendur Róbert, nú síðast haustið 2020 þegar breskur blaðamaður hafði rætt við fjölmarga stjórnendur fyrirtækisins.  En það er hinsvegar rétt hjá Árna, að það kunna fáir þá list betur en hann sjálfur, að slökkva elda og einmitt að gera starfslokasamninga við stjórnendur sem lenda upp á kant við Róbert.  

Svo les ég það í Fréttablaðinu um helgina að ónafngreindur talsmaður Aztiq Fund saki mig um ósannindi, án þess að færa fyrir því nokkur rök. Reyndar er gengið svo langt að kalla mig „lygara“ og að Fréttablaðið sé að prenta lygi. 

Svo hlýtur það að þykja nokkuð sérstakt að google finni engan Aztiq Fund á Íslandi, sem er nú farið að tjá sig fyrir hönd Alvogen og Alvotech, fyrirbærið er hvergi skráð hér á landi og ekki aðili að þessu máli.“

Halldór segist hafa verið nauðbeygður að verjast í fjölmiðlum og það sé dapurlegt að aðstoðarforstjóri Alvogen kjósi að halda áfram með umræðu um málið á þeim vettvangi. Alvogen hefur lagt fram stefnu, þar sem þeir vilja freista þess að skera úr um lögmæti uppsagnar á mér sem uppljóstrara og starfsmanns í veikindaleyfi. 

„Í því máli mun ég leggja fram ítarleg gögn og staðfestingar á öllu því sem ég hef rætt hingað til. Árni þarf engar áhyggjur að hafa af því að til séu vitni, sem muni standa í lappirnar þegar líkamsárásir verði til umræðu fyrir dómi. Fréttablaðið hafi eðlilega gengið úr skugga um það áður en umfjöllun var birt.  Engar stoðir.......allir starfsmenn........og var í flugvél eru nú þegar orðnir óborganlegir frasar og augljós markleysa. 

Auðvitað liggur það fyrir að Róbert hótaði fyrrverandi samstarfsmönnum sínum lífláti og fjölskyldum þeirra, réðst í tvígang á nána samstarfsmenn með hnefahöggum og hefur borið óvildarmenn sýna þungum sökum, með andstyggilegum ásökunum. Það gefur auga leið að forstjóra sem verður uppvís að slíku, er tæplega hæfur í forystuhlutverk. Tilraun Árna til að tengja veikindi mín inn í þá umræðu er sérstaklega ósvífin.

Árni sjálfur hefur gegnt ýmsum hlutverkum innan Alvogen síðustu ár. Fyrst sem starfsmaður, svo allt í einu varð hann risastór hluthafi, en svo hentaði betur að hann ætti bara lítinn hluta. Í raun hefur verið ansi flókið og erfitt að fylgjast með fléttum Árna Harðarsonarí gegnum tíðina, sem vill síður láta sannleikann þvælast fyrir sér og er ávallt reiðubúinn að haga seglum eftir vindi.

Vonandi fáum við fleiri „ástarbréf“ frá Árna Harðarsyni lögfræðing.“