Nýr framkvæmdastjóri hefur tekið við í Malbikunarstöðinni Höfða hf. í Reykjavík. 1. febrúar s.l. lét Valur Guðmundsson af störfum sem framkvæmdastjóri Höfða og við því starfi tók Halldór Torfason, sem áður hafði starfað sem deildarstjóri hjá fyrirtækinu að því er segir í tilkynningu.

Valur var ráðinn framkvæmdastjóri þegar Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar og Grjótmulningsstöð Reykjavíkurborgar var breytt í eitt hlutafélag í ársbyrjun 1997 undir nafninu Malbikunarstöðin HÖFÐI hf. Áður hafði Valur verið starfandi hjá framangreindum fyrirtækjum borgarinnar frá 1973, og sem forstöðumaður frá árinu 1981. Í ársbyrjun síðasta árs sagði Valur upp störfum með árs fyrirvara. Það varð að samkomulagi milli Vals og stjórnar Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. að hann starfi áfram hjá fyrirtækinu sem ráðgjafi. Stjórnin þakkar Val fyrir einstaklega góð og gifturík störf í þágu fyrirtækisins frá stofnun þess.

Halldór Torfason er jarðfræðingur að mennt. Hann útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 1974 og stundaði framhaldsnám við háskólann í Uppsala 1975-1979. Hann hóf störf hjá Malbikunarstöðinni HÖFÐA hf. við stofnun fyrirtækisins árið 1997 og hefur verið deildarstjóri rannsókna- og þróunardeildar. Áður starfaði hann hjá Borgarverkfræðingi í Reykjavík, á árunum 1979 til 1996.