*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 1. september 2017 11:05

Halldóra og teymi til Íslandssjóða

Halldóra Skúladóttir, Katrín Huld Grétarsdóttir, Kristín Jóna Kristjánsdóttir og Vignir Þór Sverrisson til nýrrar eingingar Íslandssjóða.

Ritstjórn
Halldóra Skúladóttir, Katrín Huld Grétarsdóttir, Kristín Jóna Kristjánsdóttir og Vignir Þór Sverrisson ganga til liðs við Íslandssjóði
Aðsend mynd

Samhliða því að Íslandssjóðir tóku að sér eignastýringu sérgreindra eignasafna fyrir Íslandsbanka hefur fjögurra manna eignastýringarteymi nú gengið til liðs við Íslandssjóði. Halldóra Skúladóttir veitir forstöðu nýrri einingu innan Íslandssjóða, Eignastýringu, og með henni starfa þrír reyndir sérfræðingar í eignastýringu, Katrín Huld Grétarsdóttir, Kristín Jóna Kristjánsdóttir og Vignir Þór Sverrisson.

Meðalstarfsaldur þeirra á fjármálamarkaði er 17 ár að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Eignastýring Íslandssjóða stýrir eignum á öllum helstu verðbréfamörkuðum fyrir hönd viðskiptavina sem gert hafa eignastýringarsamning við Íslandsbanka og VÍB, hvort sem um ræðir einstaklinga, lífeyrissjóði eða aðra fagfjárfesta. 

Íslandssjóðir hf. er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1994 og er dótturfélag Íslandsbanka. Eignir í stýringu í sjóðum og sérgreindum eignasöfnum nema yfir 200 milljörðum króna og hjá félaginu starfa 19 sérfræðingar í eignastýringu.