Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað Halldóru Vífilsdóttur í embætti forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins til fimm ára frá 1. apríl 2015. Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins.

Halldóra lauk B.Arch frá University of North Carolina, M. Arch frá Tækniháskólanum í Helsinki og námskeiðum á meistarastigi í skipulagsfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Hún starfaði sem arkitekt og verktaki hjá Arkitektarstofu Hilmars og Finns, sem Hönnunarstjóri Mosagötu hjá Arkís, sem framkvæmdastjóri Holt og bolt og var eigandi Hvar arkitektar. Hún hefur auk þess starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands í nokkur ár. Árið 2010 hóf hún störf hjá FSR, fyrst sem verkefnastjóri en sem aðstoðarforstjóri frá árinu 2012.

Embættið var auglýst í febrúar síðastliðnum og bárust í heild sautján umsóknir.

Halldóra er gift Þór Sigfússyni framkvæmdastjóra Sjávarútvegsklasans.