Hallgrímur Ásgeirsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Lögfræðiráðgjafar Landsbankans. Hallgrímur er búsettur í Brüssel og hefur frá árinu 2005 starfað sem framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að hann komi til starfa fyrir bankann fljótlega á nýju ári.

Í tilkynningunni er farið yfir starfsferil Hallgríms. Hann starfaði sem aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands frá árinu 2001 og var jafnframt framkvæmdastjóri Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þá var hann formaður samráðsnefndar um frágang verðbréfaviðskipta og átti sæti í samstarfsnefnd evrópskra bankaeftirlitsyfirvalda (CEBS) og í kauphallarnefnd.  Á árunum 1998 - 2001 starfaði hann sem sérfræðingur á sviði fjármálalöggjafar hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brüssel. Hann var forstöðumaður lögfræði- og stjórnsýslusviðs Siglingastofnunar Íslands 1996-1998 og lögfræðingur við lögfræðideild Búnaðarbanka Íslands 1993-1996.

Hallgrímur  lauk LLM gráðu í Evrópurétti frá University of Leicester 2005 og MSc gráðu í fjármálafræðum og rekstrarstjórnun frá Boston University árið 2001. Hallgrímur er stundakennari við lagadeild HR með fjármálafyrirtæki, fjármálamarkaði og fjármálakerfi sem sérsvið en var áður stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands 1994-1998. Hallgrímur hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun og hefur réttindi héraðsdómslögmanns. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands.

Hallgrímur er fæddur 1962, hann er kvæntur Marion Wiechert og eiga þau tvö börn.