Íslenski reiðhjólaframleiðandinn Lauf Cycling hefur ráðið Hallgrím Björnsson í stöðu fjármála- og rekstrarstjóra.

Hallgrímur er með  M.S  gráðu í hagfræði og fjármálum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og  B.S gráðu í hagfræði og viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum í Árósum. Þá er Hallgrímur löggiltur verðbréfamiðlari. Á árunum 2007-2016 starfaði hann í fjármálageiranum á sviði fjárstýringar, fyrirtækjaráðgjafar og greiningar. Á árunum 2016-2019 starfaði Hallgrímur sem forstöðumaður hjá Eimskip.

Lauf Cycling sett á markað reiðhjól undir eigin merkjum fyrir tveimur árum, Lauf true grit, sem er svokallað malarhjól.  Í ár kom svo á markað önnur gerð undir nafninu Lauf anywhere.

“Það eru gríðarlega áhugaverðir en krefjandi tímar framundan hjá Lauf. Vörumerkið er sterkt og vörurnar hafa hlotið botnlaust lof. Hjá Lauf er frábær liðsandi og öflugt teymi starfsfólks sem ég hlakka til að vinna náið með. Næstu verkefni snúa m.a. að því að koma á fót starfsstöð í Bandaríkjunum og stórauka vöruframboð félagsins,” er haft eftir Hallgrími í tilkynningu um ráðninguna.

"Það markar tímamót hjá Lauf að fá Hallgrím til okkar. Nú getum við sem fyrir vorum einbeitt okkur í meiri mæli að þróun á vörum og vörumerki, þannig beitt okkur þar sem við erum sterkust. Hallgrímur fær svo það verkefni að búa til sterkan rekstur út frá þeirri vinnu," er haft eftir Benedikt Skúlasyni, forstjóra Lauf.