Halli á við­skipta­jöfnuði var 10,1 milljarðar króna á fyrsta árs­fjórðungi þessa árs sem er um 21,7 milljarða króna betri niður­staða en á sama tíma­bili í fyrri.

Niður­staðan er einnig 12,9 milljörðum betri en á árs­fjórðungnum á undan. Halli á vöru­skipta­jöfnuði var 45,7 milljarðar króna og 21,4 milljarða af­gangur á þjónustu­jöfnuði.

Frum­þátta­tekjur skiluðu 26,1 milljarða króna af­gangi en rekstrar­fram­lög 12 milljarðar króna halla, sam­kvæmt ný­birtum upp­lýsingum frá Seðla­banka Ís­lands sem sýna bráða­birgða­yfir­lit yfir greiðslu­jöfnuð við út­lönd á fyrsta á fyrsta árs­fjórðungi 2023 og er­lenda stöðu þjóðar­búsins í lok árs­fjórðungsins.

Betri niður­staða við­skipta­jafnaðar miðað við sama árs­fjórðung árið 2022 skýrist af hag­stæðari niður­stöðu frum­þátta­tekna sem nemur 35,2 milljörðum króna.

„Að mestu leyti skýrist það af lakari af­komu fyrir­tækja í er­lendri eigu sem flokkast undir beina fjár­festingu. Einnig var aukinn af­gangur af þjónustu­við­skiptum sem nemur 15,6 ma.kr. Á móti vegur meiri halli af vöru­við­skiptum sem nemur 26,5 ma.kr og af rekstrar­fram­lögum sem nemur 2,6 ma.kr,“ segir í til­kynningu Seðla­bankans.

Í lok árs­fjórðungsins var hrein staða við út­lönd já­kvæð um 1.022 milljarðar króna eða 26,3% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF) og batnaði um 50 milljarða eða 1,3% af VLF á fjórðungnum.

Er­lendar eignir þjóðar­búsins námu 5.120 milljörðum í lok árs­fjórðungsins en skuldir 4.098 milljörðum.

„Á fjórðungnum versnaði staðan um 29 ma.kr. vegna fjár­magns­við­skipta en er­lendar eignir hækkuðu um 89 ma.kr. og skuldir um 118 ma.kr. Gengis- og verð­breytingar lækkuðu virði eigna á árs­fjórðungnum um 9 ma.kr. og skulda um 92 ma.kr. og leiddu því til 83 ma.kr. betri hreinnar er­lendrar stöðu.“

„Gengi krónunnar hækkaði um 3,1% miðað við gengis­skráningar­vog. Verð á er­lendum verð­bréfa­mörkuðum hækkaði um 7% milli fjórðunga og verð á bréfum á inn­lendum hluta­bréfa­markaði um 7,3%,“ segir í til­kynningu SÍ.