Greiningardeild Íslandsbanka reiknar með að halli af vöruskiptum í október verði töluvert minni en undanfarna mánuði.

Samkvæmt bráðabirgðatölum fjármálaráðuneytisins nemur innflutningur 21,5 milljörðum króna. ?Innflutningur minnkaði til muna milli mánaða, en á móti kemur að líkur eru á að útflutningur sjávarafurða hafi verið með með rýrara móti, bæði vegna minna verðmætis sjávarafla og birgðasöfnunar," segir greiningardeild Íslandsbanka.

?Er það töluverður samdráttur frá fyrri mánuði og helsta skýringin mun vera minni innflutningur eldsneytis. Samt sem áður verður vöruskiptahalli umtalsverður, þótt met síðustu mánaða í þeim efnum verði ekki slegin að sinni," segir greiningardeildin.

Íslandsbanki segir að í heild hafi aflaverðmæti dregist saman um tæp 14% miðað við október í fyrra á föstu verðlagi. Bankinn segir að lítils háttar samdráttur aflaverðmætis hafi einnig verið í september frá fyrra ári, auk þess sem gengisþróun hefur vegið upp hækkun heimsmarkaðsverðs sjávarafurða síðustu tólf mánuði.

?Því bendir flest til þess að töluverður samdráttur verði í verðmæti útfluttra sjávarafurða í október ef miðað er við sama mánuð 2004. Einnig heldur hátt gengi aftur af aukningu í útflutningsverðmæti iðnaðarvara," segir greiningardeildin.

?Áfram mun svo verða töluverður halli á vöruskiptum við útlönd, að minnsta kosti á meðan gengi krónu helst jafn hátt og nú er raunin," segir greiningardeild Íslandsbanka.