*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 27. mars 2019 14:41

Halli Akureyrarbæjar um 380 milljónir

377 milljóna afgangur var af rekstri A- og B- hluta bæjarsjóðs á Akureyri í fyrra sem er 35% minni en árið áður.

Ritstjórn
Ásthildur Sturludóttir, fyrrum bæjarstjóri í Vesturbyggð, var ráðinn bæjarstjóri Akureyrar eftir kosningarnar í vor, þegar meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar og L lista hélt velli og var endurnýjaður.

Rekstur Akureyrarbæjar gekk betur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir á síðasta ári, þrátt fyrir ríflega milljarðs gjaldfærslu vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingum, og var A og B hluti bæjarsjóðs rekinn með 377 milljóna króna afgangi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bænum.

Er það þó ríflega 35% samdráttur frá fyrra ári þegar afgangurinn nam 583,5 milljónum króna, en eins og áður sagði aukning, um 64% frá fjárhagsáætluninni sem gerði ráð fyrir 229,6 milljóna afgangi á árinu.

A - hluti minna neikvæður en áður

A hluti bæjarsjóðs var hins vegar rekinn með neikvæða rekstrarniðurstöðu, sem nam 383,8 milljónum króna, sem er þó bæting um 24% frá árinu undan þegar tapið nam 503,9 milljónum króna. Staða A hluta var þó neikvæðari en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir um sem nemur ríflega 40 milljónum króna.

Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga nam 978 milljónum króna í A-hluta sem var 578 milljónum króna umfram áætlun. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 1.619 milljónir en áætlun hafði gert ráð fyrir 1.564 milljóna króna rekstrarafgangi.

Samkvæmt yfirliti um sjóðsstreymi nam veltufé frá rekstri 3.219 milljónum króna sem var ríflega 800 milljónum króna hærra en áætlun hafði gert ráð fyrir og var það sambærileg fjárhæð og árið áður. Handbært fé frá rekstri nam 1.140 milljónum króna.

Eyddu 4 milljörðum í uppbyggingu

Svokallaðar fjárfestingahreyfingar námu samtals nettó 4.032 milljónum króna en fjármögnunarhreyfingar námu samtals nettó 2.559 milljónum króna. Afborgun langtímalána nam 2.781 milljónum króna en ný langtímalán voru 5.397 milljónir króna.

Lækkun á handbæru fé á árinu nam 333 milljónum króna og nam handbært fé samstæðunnar í árslok 2.819 milljónum króna. Veltufé frá rekstri árið 2018 í hlutfalli við tekjur nam 12,6% í samstæðunni og 8,5% í A-hluta. Árinu áður voru hlutföllin 13,8% í samstæðunni og 10,7% í A-hluta.

600 þúsund króna meðallaunakostnaður

Heildarlaunagreiðslur án launatengdra gjalda og hækkunar lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni voru 11.299 milljónir króna. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 1.563 sem er fjölgun um 36 stöðugildi frá árinu áður. Laun og launatengd gjöld samstæðunnar í hlutfalli við rekstrartekjur þess voru 59,0%, en miðað við þessar fjárhæðir nam meðallaunakostnaður á starfsmann bæjarins 7,2 milljónum króna fyrir árið, sem gerir um 602 þúsund krónur á hvern á mánuði.

Annar rekstrarkostnaður var 28,8% af rekstrartekjum. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 791 þúsund krónur á hvern íbúa en tekjur samtals 1.353 þúsund krónur á hvern íbúa. Árið 2017 voru skatttekjurnar 747 þúsundir króna á hvern íbúa og námu heildartekjurnar 1.273 þúsundum krónur á hvern íbúa.

Eignirnar ríflega 54 milljarðar en skuldirnar tæplega 29,5 milljarðar króna

Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir sveitarfélagsins í árslok 2018 bókfærðar á 54.232 milljónir króna en þar af voru veltufjármunir 5.603 milljónir króna. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 29.437 milljónir króna en þar af voru skammtímaskuldir 4.052 milljónir króna.

Fjárhagur Akureyrarbæjar er sagður traustur í fréttatilkynningu bæjarins og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 75% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 95% árið áður. Ástæður lækkunar skuldaviðmiðsins má rekja til breyttra reglna við útreikning þess. Með sambærilegum útreikningi árið áður var skuldahlutfallið 70%.

Skuldaviðmið í A-hluta var 59% í árslok en var 60% árið áður miðað við núgildandi reglur um útreikninginn. Veltufjárhlutfallið var 1,38 í árslok 2018 en var 0,87 árið áður. Bókfært eigið fé nam 24.796 milljónum króna í árslok en var 20.181 milljónir króna í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfall var 46% af heildarfjármagni en var 44% árið áður.

Stikkorð: rekstur Akureyri sjóður