Þjónustuafgangurinn á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var um 18,5 milljörðum minni á síðasta ári en árið 2017, eða 33,4 milljarðar í stað 51, 9 milljarða á sama tíma árið 2017, á gengi hvors árs, að því er Hagstofan segir frá .

Er þetta þó minni afgangur en bæði Íslandsbanki og Arion banki höfðu vænst, og bendir sá síðarnefndi á að samdrátturinn milli ára samsvari 42,3% samdrætti milli ára á föstu gengi. Hafði Arion banki spáð 50 milljarða króna afgangi, en báðir benda bankarnir á að það sé ekki ferðaþjónustan sem mestu muni um heldur hugverkaiðnaðurinn, en lyfjaiðnaðurinn er þar meðtalinn.

Þannig hafi ferðaþjónustan sjálf aðeins lítillega verið undir væntingum, tekjurnar á ársfjórðungnum af erlendum ferðamönnum hafi numið 103 milljörðum króna á móti 108 milljarða króna spá Arion banka.

Hagstofan birti í dag einnig tölur fyrir vöruskiptajöfnuð, sem hafi verið óhagstæður um 37 milljarða króna, svo þar með hafi vöru- og þjónustujöfnuðurinn samtals verið neikvæður um 3,5 milljarða. Bendir Arion banki á að þetta sé í fyrsta skipti frá árinu 2008 sem þetta gerist fyrir heilan ársfjórðung.

Íslandsbanki bendir á að útflutningur þjónustu fyrir árið 2018 í heild sinni hafi skroppið saman um 2%, meðan innflutningurinn hafi aukist um 14%, en það síðara megi rekja til meiri ferðagleði landsmanna og umtalsverðan vöxt í innflutningi á þjónustu tengdri tækni og annarri viðskiptaþjónustu. Þannig hafi þjónustuafgangurinn í heild sinni skroppið saman um 9,5% á milli ára, en í heildina nam hann 246 milljörðum á síðasta ári.