Afkoma Fljótsdalshéraðs var neikvæð um 22,1 milljón króna í fyrra, en var neikvæð um 196,4 milljónir árið 2011. Áætlanir sveitarfélagsins gerðu ráð fyrir 286.000 króna afgangi í fyrra. Afkoma A- og B-hluta samanlagt var neikvæð um 27,1 milljón króna, samanborið við 168,2 milljóna króna halla í fyrra. Áætlanir gerðu ráð fyrir 10,5 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta samanlagt.

Það sem helst skýrir mismuninn milli áætlana og endanlegrar niðurstöðu A-hluta sveitarsjóðsins eru annars vegar það að rekstrargjöld voru 32,6 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir í áætlunum og þá voru fjármagnsgjöld 19 milljónum hærri en í áætluninni. Á móti voru rekstrartekjur sveitarfélagsins 25,2 milljónum hærri en gert var ráð fyrir í áætlunum.

Eignir A- og B-hluta Fljótsdalshéraðs námu alls 7,2 milljörðum króna í árslok 2012 og lækkuðu um átta milljónir milli ára. Skuldir námu tæpum 7,3 milljörðum og lækkuðu um 170 milljónir króna milli ára. Eigið fé A- og B-hluta er því neikvætt um 78,5 milljónir króna.