Heildarjöfnuður ríkissjóðs hefur versnað um 5 milljarða króna eða 23,9% verði frumvarp um fjáraukalög, sem nú er að fara í aðra umræðu á Alþingi, að lögum. Frumjöfnuður, sem er mismunur tekna og gjalda ríkissjóðs án vaxtagjalda, versnar um 5,8 milljarða króna eða 16,1%. Þetta kemur fram í nýframlögðu nefndaráliti minnihluta fjárlaganefndar Alþingis á fjáraukalögum árið 2012.

Hér að neðan er tafla sem sýnir breytingar á tekjum og gjöldum ríkissjóðs frá samþykkt fjárlaga 2012:

Breyting á fjárlögum 2012 samkvæmt fjáraukalögum.
Breyting á fjárlögum 2012 samkvæmt fjáraukalögum.
© vb.is (vb.is)

Aukin útgjöld tekin að láni

Í nefndarálitinu segir að við nánari athugun sjáist að þrátt fyrir að frumtekjur lækki um 1,6 milljarða kr. við 2. umræðu leggur meiri hlutinn  til að frumútgjöld verði aukin um 3,1 milljarð kr. Þær viðbótarheimildir verður að fjármagna með lántöku.

Vaxtagjöld hækka

„Þá sýnir taflan hve áhættusöm staða ríkissjóðs er gagnvart hækkun vaxtagjalda af lántökum. Vextir á alþjóðamörkuðum hafa verið í lágmarki á undanförnum árum, en auk þess lækka gjaldeyrishöft fjármagnskostnað ríkissjóðs. Við framlagningu frumvarpsins voru vaxtagjöld hækkuð um 3,1 milljarð kr. en við aðra umræðu voru þau lækkuð um 4,4 milljarða kr.,“ segir í nefndarálitinu og vísar í töfluna hér að ofan.

Undir álit minnihlutans skrifa Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.