Kostnaður vegna SpKef og gjaldfærslur vegna Byggðastofnunar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skýra að stórum hluta verri afkomu ríkissjóðs á síðasta ári en búist var við. Afkoman var 43 milljörðum krónum verri en gert var ráð fyrir samkvæmt fjárheimildum ársins 2011. Gjöldin námu um 576 milljörðum króna en samkvæmt fjárlögum var búist við að þau yrðu 527 milljarðar. Tekjur ríkisins voru um 486,5 milljarðar sem er um 6 milljörðum meira en gert var ráð fyrir. Gjöld voru því tæplega 90 milljörðum meiri en tekjurnar. Á árinu 2010 var hallinn neikvæður um 123 milljarða.

Í umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag kemur fram að frá ársbyrjun 2009 nemur útgáfa ríkisskuldabréfa og ríkisvíxla samtals um 725 milljörðum króna. Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra segir að fjármagnskostnaði verði aðeins náð niður með því að stöðva skuldasöfnun. "Þegar við erum að reka okkur að hluta til á lánum þá vaxa þessi gjöld. Þess vegna er svo mikilvægt að ná því markmiði að hætta skuldasöfnun og komast í þá stöðu að geta greitt niður skuldir," segir hún.