Í septembermánuði voru fluttar út vörur fyrir 54,5 milljarða króna og inn fyrir 65 milljarða króna fob, eða 68,6 milljarða króna cif. Vöruskiptin í september, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 10,5 milljarða króna. Í september 2013 voru vöruskiptin hagstæð um 139 milljónir króna á gengi hvors árs. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands .

Fyrstu níu mánuði ársins 2014 voru fluttar út vörur fyrir 426,8 milljarða króna en inn fyrir 443,2 milljarða króna fob, eða 473,9 milljarða króna cif. Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 16,4 milljarða króna, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 23,6 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 40 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Fyrstu níu mánuði ársins 2014 var verðmæti vöruútflutnings 28,2 milljörðum eða 6,2% lægra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 51,8% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 5,7% lægra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna áls. Sjávarafurðir voru 41,5% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 11,9% lægra en á sama tíma árið áður. Á móti kom að aukning varð á sölu skipa og flugvéla.

Verðmæti vöruinnflutnings nam á fyrstu níu mánuðum ársins 11,8 milljörðum eða 2,7% hærri á gengi hvors árs¹ en á sama tíma árið áður. Aukinn innflutningur var á flutningatækjum, aðallega skipum og fólksbílum.