Halli á vöruviðskiptum við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins nam 89,6 milljörðum króna reiknuð á fob verðmæti. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands . Á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 voru fluttar út vörur fyrir 405,7 milljarða króna en inn fyrir 496,3 milljarða króna.

Á sama tíma í fyrra voru vöruviðskiptin óhagstæð um 17,1 milljarð á gengi hvors árs. Vöruviðskiptajöfnuðurinn var þá 72.5 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Í september voru fluttar út vörur fyrir rúma 46,3 milljarða króna. Vöruviðskiptin í september voru því óhagstæð um 3,3 milljarða. Í september 2015 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 8,4 milljarða króna á gengi hvors ár.

Útflutningur fyrstu 9 mánuði ársins

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 var verðmæti vöruútflutnings 74 milljörðum króna lægra eða 15,4% en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru rúmlega 50% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 20,5% lægra en á sama tíma árið áður Þetta skýrist aðallega af lægra álverði. Sjávarafurðir voru 43,5% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 12,4% lægra en á sama tíma árið áður.

Innflutningur fyrstu 9 mánuði ársins

Á fyrstu níu mánuðum ársins var verðmæti vöruinnflutnings 1,4 milljörðum króna lægri eða 0,3% en sama tímabili árið áður. Aðallega dróst innflutningur á hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti saman. Innflutningur á fjárfestingarvörum og flutningatækjum jókst.