Í maí voru fluttar út vörur fyrir 49,3 milljarða króna og inn fyrir tæpa 68,7 milljarða króna. Vöruviðskiptin í maí  voru því óhagstæð um 19,3 milljarða króna. Í maí 2016 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 17,3 milljarða króna á gengi hvors árs að því er kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Fyrstu fimm mánuði ársins var halli á vöruviðskiptum við útlönd sem nam 67,2 milljörðum króna. Á sama tíma árið áður voru vöruviðskiptin óhagstæð um 49,5 milljarða á gengi hvors árs. Vöruviðskiptajöfnuðurinn var því 17,7 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður. Fyrstu fimm mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 199,2 milljarða króna en inn fyrir 266,4 milljarða króna.

Útflutningur
Fyrstu fimm mánuði ársins 2017 var verðmæti vöruútflutnings 27,4 milljörðum króna lægra, eða 12,1%, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 55,3% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,0% lægra en á sama tíma árið áður. Útflutningur á lyfjum og lækningatækjum dróst saman en útflutningur á áli jókst. Sjávarafurðir voru 38,1% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 22,9% lægra en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur var í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum.

Innflutningur
Fyrstu fimm mánuði ársins 2017 var verðmæti vöruinnflutnings 9,6 milljörðum króna lægra, eða 3,5%, á gengi hvors árs, en á sama tímabili árið áður. Aðallega dróst innflutningur á flugvélum og neysluvörum saman en á móti jókst innflutningur á skipum, eldsneyti, fólksbílum og hrá- og rekstrarvörum.