Hallinn á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga nam samkvæmt tryggingafræðilegri athugun um 13 milljörðum króna í árslok 2010 og þarf iðgjald sveitarfélaganna því að hækka um 4% til viðbótar en iðgjaldið var hækkað úr 11,5% í 12% árið 2007.

Þetta kemur fram í minnisblaði borgarlögmanns og fjármálastjóra Reykjavíkurborgar til borgarráðs.

Í því kemur fram að stærsta hluta hallans eða um 8,6 milljarða króna megi rekja til breytinga á forsendum um lífslíkur en um tvo milljarða megi rekja til lægri ávöxtunar en sem nemur lögbundnu viðmiði en það er 3,5%.