Afkoma A- og B-hluta bæjarsjóðs Reykjanesbæjar var neikvæð um 433,2 milljónir króna í fyrra samanborið við 653,7 milljóna króna halla árið á undan. Afkoma A-hluta bæjarsjóðs var hins vegar jákvæð um 707,9 milljónir króna í fyrra samanborið við 33,3 milljóna króna afgang árið 2011.

Tekjur A- og B-hluta samanlagt hækkuðu um tæpar nítján milljóni milli ára og voru rétt rúmir 13,9 milljarðar króna. Rekstrarkostnaður jókst um 678 milljónir og nam 11,1 milljarði króna í fyrra. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði var því jákvæð um 2,8 milljarða í fyrra, en var jákvæð um 3,5 milljarða árið 2011.

Afskriftir A- og B-hluta námu 1.020,7 milljónum í fyrra en voru 977 milljónir ári 2011. Miklu munar hins vegar um að fjármagnsgjöld voru einum milljarði lægri í fyrra en árið 2011 og skýrir það betri niðurstöðu en í fyrra og vegur upp á móti því að fjármagnstekjur lækkuðu um 180 milljónir.

Afkoman betri en áætlanir gerðu ráð fyrir

Þegar A-hlutinn einn er skoðaður lækkuðu tekjur um 140 milljónir króna á milli ára og vegur þar þungt að í fyrra var engin eignasala, en árið 2011 voru fastafjármunir seldir fyrir tæpar 780 milljónir króna. Rekstrarkostnaður hækkaði um rúmar 600 milljónir króna og nam hækkun launa og launatengdra gjalda þar af um 320 milljónum. Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs fyrir afksriftir, skatta og fjármagnsliði var jákvæð um 888,5 milljónir króna í fyrra, en var jákvæð um 1.636,1 milljón árið 2011. Miklu munar hins vegar á áhrifum fjármagnsliða á milli ára. Fjármagnsgjöld námu alls rúmum 2,1 milljarði króna árið 2011, en voru 346,2 milljónir í fyrra. Fjármagnstekjur lækkuðu aftur á móti úr 657,7 milljónum í 495,6 milljónir á milli ára.

Afkoma A-hluta bæjarsjóðs er töluvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en þar var reiknað með 190,6 milljóna króna afgangi. Niðurstaða A- og B-hluta samanlagt er hins vegar frekar í takt við áætlanir sem gerðu ráð fyrir rekstrartapi upp á 491,7 milljónir.