Niðurstaða ríkisreiknings staðfestir það að markmið um að ná tökum á rekstri ríkisins hafa ekki náðst, að því er segir í Hagsjá Landsbankans.

Þar er einnig minnt á að í nýlegu riti Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga kemur fram sú skoðun stofnunarinnar að agi við framkvæmd fjárlaga hefði farið minnkandi og að hækkanir á fjárheimildum eftir samþykkt fjárlaga séu of miklar.

„Ferillinn frá fjárlagafrumvarpi til endanlegrar niðurstöðu fyrir árið 2012 sýnir þetta vandamál í hnotskurn. Í frumvarpi var lagt af stað með 18 milljarða halla, sem hækkaði upp í 21 ma. kr. við afgreiðslu frumvarpsins. Við samþykkt fjáraukalaga bættust nýir 5 milljarðar við hallann og við útkomuríkisreiknins sést að 10 milljarðar til viðbótar hafa verið færðir til gjalda. Niðurstaða ríkisreiknings upp á 36 milljarða halla er því tvöfalt verri en lagt var af stað með þegar upphaflegt frumvarp var lagt fram. Rekstarhallinn 2012 nemur 7% af tekjum ríkissjóðs eða um 2% a landsframleiðslu,“ segir í Hagsjánni.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 var gert ráð fyrir lítils háttar halla á tekjujöfnuði, eða sem nam 2,8 milljörðum króna. Frumvarpið var síðan samþykkt með 3,7 milljarða króna halla. „Næsta skref varðandi rekstur þessa árs verður samþykkt fjáraukalaga. Við því er að búast að töluvert þurfi að bæta í fjárheimildir í fjáraukalögum vegna aukins kostnaðar. Því til viðbótar bætast stór úrlausnarefni eins og vandi Íbúðalánasjóðs, og einnig má nefna meðferð lífeyrisskuldbindinga ríkisins, sem er óútkljáð mál.

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 verður síðan lagt fram við upphaf þings í haust, en nokkuð ljóst er að erfitt verður að ná þeim markmiðum sem sett voru um afgang í rekstri ríkisins á árinu 2014.“

Vaxtakostnaður hefur aukist mjög frá hruni

Í Hagsjánni er einnig fjallað um skuldastöðu og fjármögnunarkjör ríkisins. „Þrátt fyrir að fjármögnunarkjör á markaði séu með allra hagstæðasta móti þessi árin er greiðslubyrði vegna vaxta verulega íþyngjandi fyrir ríkissjóð. Vaxtabyrði nam undir 5% af tekjum ríkissjóðs á árunum fyrir hrun, en er nú í kringum 14%. Vaxtagjöld á árinu 2012 voru um 75 ma. kr. og höfðu aukist um rúma 10 milljarða frá árinu áður. Í fjárlögum ársins 2013 er gert ráð fyrir vaxtagjöldum upp á u.þ.b. 85 ma. kr. Til samanburðar má benda á að í fjárlagafrumvarpi ársins 2013 er gert ráð fyrir því að það kosti tæpa 38 ma.kr. að reka Landspítalann, vaxtakostnaður ársins 2013 er því um tvöfalt meiri en sem nemur rekstrarkostnaði spítalans.„

Að lokum segir að mikil óvissa og áhætta tengis fjármögnunarkjörum ríkissjóðs. „Í vefriti Fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá því um síðustu áramót var t.d. bent á að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa gæti hækkað sem fæli í sér aukinn kostnað vegna nýrrar lántöku. Á þeim tíma var ekki gert ráð fyrir mikilli útgáfu ríkisskuldabréfa, en nú lítur út fyrir að það sé að breytast í ljósi upplýsinga um raunverulega stöðu. Öll rök, m.a. um mikla vaxtabyrði og tengda áhættu, vísa því í þá átt að það sé verulega brýnt að ná tökum á rekstri ríkisins og greiða niður skuldir.“