Hallir ehf. hefur keypt húseignirnar við Austurstræti 12A og 14 á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis. Fritz H. Berndsen er skráður stjórnarformaður Halla ehf. Grétar Ingi Berndsen, sonur eigandans, segir að verið sé að ganga frá samningum varðandi fjármögnun en húsið verði afhent 1.desember.

Grétar vildi ekki gefa upp kaupverðið en mikill slagur hafi verið um þessa eign á endasprettinum. "Þetta var dýrt og það var mikill sprettur um þetta undir lokin. Við erum samt bjartsýnir á að láta þetta ganga."

Þorlákur Ómar Einarsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Miðborg, sagði að settar hafi verið 620 milljónir króna á eignirnar þegar þær voru auglýstar til sölu. Hann vildi heldur ekki gefa upp endanlegt verð, en söluverðið hafi væri talsvert hærra en uppsett verð. Sagði hann að fjölmörg tilboð hafi borist enda um að ræða eitt fallegasta og best staðsetta hús í miðborginni. Það er ríflega 2.200 fermetrar að heildarflatarmáli og var selt ásamt rekstri kaffihússins Café Paris og söluturnsins London sem eru á jarðhæðinni.

Grétar Berndsen segir að ekki séu fyrirhugaðar breytingar á starfseminni í húsinu og plássið yrði væntanlega leigt út áfram til núverandi leigjenda.

Meðal fyrirtækja sem þarna eru með aðsetur er næturklúbburinn Óðal sem er skráður á Veitingahúsið Austurvöll ehf. sem er skrifað með aðsetur að Rauðhellu 1 í Hafnarfirði. Grétar segir að fyrirtækið Hallir ehf. sé samt eignalega ótengt Óðali eða Veitingahúsinu Austurvelli ehf. þó fyrirtækin séu vissulega bæði skráð á sama heimilisfangið í Hafnarfirði.