Hagnaður vélsmiðjunnar Hamars ehf. á síðasta ári nam rúmlega 224 milljónum króna og jókst um ríflega 26 milljónir króna milli ára. Velta félagsins nam 2,2 milljörðum króna en hafði verið rúmlega 1,9 milljarðar árið á undan. Eignir félagsins eru metnar á tæpan milljarð. Eigið fé stendur nú í 724 milljónum króna en þar af er hlutafé 500 þúsund krónur. Skuldir félagsins nema rúmum 225 milljónum en handbært fé í árslok 2019 var tæpar 362 milljónir.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um úthlutun arðs vegna rekstrarársins. 118 starfsmenn störfuðu að meðaltali hjá félaginu og námu laun og launatengd gjöld ríflega 1,1 milljarði króna. Í skýringum ársreiknings er gerð grein fyrir áhrifum vegna COVID-19 en það er mat stjórnenda að lausafjárstaða félagsins sé sterk. Hamar er í eigu félagsins Stál í stál ehf. en stærsti hluthafi þess er SÍA III sem er í rekstri Stefnis. Framkvæmdastjóri Hamars er Kári Pálsson.