Seðlabanki Íslands vill breyta reglum um gjaldeyrismál þannig að óheimilt verði að flytja gjaldeyri í reiðufé út úr landinu umfram 350 þúsund krónum samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Það þýðir að ferðalangar sem ætla til útlanda í sumar geta ekki keypt gjaldeyri til fararinnar umfram þá upphæð í hverjum almanaksmánuði. Núverandi hámark er miðað við 500 þúsund krónur og þurfa einstaklingar að framvísa farseðli til að fá gjaldeyri afgreiddan í banka.

Þetta er meðal tillagna um breytingar á gjaldeyrishöftunum sem Seðlabankinn hefur sent fjármálafyrirtækjum til umsagnar.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri og upplýsingafulltrúi bankastjórnar, segir stjórnendur bankans ekki vilja tjá sig hvort þessi vinna sé í gangi eða ekki. Yfirlýst markmið gjaldeyrishaftanna er að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast til og frá landinu sem valda alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum að mati Seðlabankans.