Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vill að fólk þurfi ekki að greiða tekjuskatt af þeim hluta launa sem fer í að greiða vinnu við viðhald og endurbætur á húsnæði fólks. Var frumvarp þess efnis lagt fram á Alþingi fyrir páska. Sem dæmi má taka að sé reikningur fyrir vinnu við viðhald eða endurbætur að meðtöldum virðisaukaskatti 500.000 kr. endurgreiðast um 100.000 kr. sem virðisaukaskattur. Helmingur þess sem eftir er eða 200.000 kr. kæmi til frádráttar frá tekjuskattsstofni og getur leitt til lækkunar á tekjuskatti og útsvari um allt að 92.600 kr. Hámark þessarar ívilnunar hjá einhleypingi verður um 90.000 kr. og um 135.000 kr. hjá hjónum.

Heimild þessi mun koma til frádráttar tekjuskattsstofni við álagningu opinberra gjalda á árunum 2011 og 2012 vegna tekjuáranna 2010 og 2011. Frádrátturinn getur aldrei orðið hærri en 50% af því sem greitt er fyrir vinnuna.

„Almennt eru þau viðhorf ríkjandi að varlega skuli farið í því að beita undanþágum í skattkerfinu og að frádrættir frá skattstofni séu sem minnstir. Sú tillaga sem hér er gerð víkur frá þeirri stefnu. Tilefnið sem skýrt er hér að framan er það ástand sem skapast hefur á vinnumarkaði í kjölfar bankahrunsins. Áætlað er að það ástand sé tímabundið og að þjóðin vinni sig út úr vandanum á næstu árum. Verður þá ekki lengur þörf á ráðstöfun sem þessari og er hún því tímabundin," segir í greinargerð með frumvarpi fjármálaráðherra.