Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs og munu hámarkslán á notuðum íbúðum fara úr 9,2 milljónum og nýbyggum úr 9,7 milljónum upp í 11,5 milljónir. Hámarksfjárhæð til þeirra sem þiggja viðbótarlán fer upp í 13 milljónir.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að í gegnum tíðina hefur skömmtun á lánsfé og síðar skömmtun á lánsfé á hagstæðustu kjörum gert verðmyndun á fasteignamarkaði fremur óskilvirka og bjagaða þar sem fasteignaverð í dreifbýli og úthverfum hefur fremur verið hyglt á kostnað annarra hverfa. Hækkun hámarksfjárhæðarinnar er því jákvæð og gerir verðmyndun á meðalstórum eignum skilvirkari en áður. Hins vegar mun hámarksfjárhæð lána Íbúðalánasjóðs eftir sem áður vera lægri en bankanna auk þess sem veðhlutfallið er lægra og vextir hærri. Líklegast mun breytingin hafa lítil áhrif á markaðshlutdeild sjóðsins. Með hækkun viðbótarlánanna mun Íbúðalánasjóður auka þjónustu sína við efnaminni fjölskyldur sem nú geta keypt dýrari eignir en áður.

Ávinningur þessa hóps hefur verið minni en annarra af innkomu bankanna inn á fasteignamarkaðinn þar sem hann naut hærra veðhlutfalls á hagstæðari kjörum en aðrir. Þessi tekjuhópur ætti að öllu jöfnu líka að fá vaxtabætur þar sem tekjur þeirra eru lægri og áhrif lægri vaxta því minni. Með þessum breytingum er sjóðurinn því að styrkja þjónusta sína og sinna þeirri félagslegu skyldu sem hann hefur gegnt segir í Hálffimm fréttum..