Fjármálaeftirlitið getur sektað lögaðila, þar á meðal banka og fjármálastofnanir, um að hámarki 50 milljónir króna. Í tilviki einstaklinga geta sektið numið á bilinu frá 100 þúsund krónum til 20 milljóna króna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari FME við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um tilhögun sekta sem FME getur lagt á. Fyrirspurn Viðskiptablaðsins var send í kjölfar ákvörðunar FME að sekta MP banka hf., sem nú heitir EA fjárfestingarfélag, um 15 milljónir króna. Brot fyrrum eigenda MP banka snéri að áhættuskuldbindingum bankans. Áhættuskuldbindingin af eiginfjárgrunni í lok árs 2009 nam 126,34% en leyfilegt hámark er 25%.

MP banki hafði stofnað til áhættuskuldbindinga við þrjú félög og félög í þeirra eigu að fjárhæð 4.252 milljónir króna. Þar að auki hafði bankinn stofnað til áhættuskuldbindinga við félög í meirihlutaeigu fjögurra stjórnarmanna að fjárhæð 2.117 milljónir króna. Samtals námu þessar áhættuskuldbindingar bankans því 6.368 milljónum.

Eins og áður segir nam sekt FME 15 milljónum og hafði verið lækkuð úr 30 milljónum króna. Í svari FME við fyrirspurn Viðskiptablaðsins kemur fram að lög kveða á um að ákvörðun sekta „skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða“.

Í ákvörðun FME segir í rökstuðningi 15 milljóna sektarinnar:

„Eins og mál þetta er vaxið, þ.á m. vegna skjótra viðbragða við kröfu um úrbætur og gagngerðrar endurskipulagningar á starfsemi bankans með þátttöku nýrra aðila hefur Fjármálaeftirlitið ákveðið að ljúka málinu með stjórnvaldssekt, sbr. 9. tölulið 1. mgr. 110. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. nú 13. tölulið. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er tekið tillit til þess að við skuldbindingum MP banka hefur tekið EA fjárfestingarfélag hf. sem starfar ekki sem fjármálafyrirtæki en hefur að megin tilgangi að gera upp við kröfuhafa bankans og hefur ekki að öðru leyti umsvif á fjármálamarkaði. Jafnframt er tekið tillit til fjárhagsstöðu félagsins. Þykir sektin því hæfilega ákveðin 15 milljónir króna.“