*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 7. desember 2017 13:04

Hámarkssektir fari í 800 milljónir

Dómari við Landsrétt segir að nýjar reglur um notkun innherjaupplýsinga hafi hækkað sektir á upp í 10% veltu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Aðalsteinn E. Jónasson hæstaréttarlögmaður og nýskipaður dómari við Landsrétt segir að ný ESB reglugerð um markaðsþreifingingar og markaðssvik skilgreini ítarlegar en áður hvað sé notkun innherjaupplýsinga en með tilkomu nýrra reglugerðar Fjármálaeftirlitsins geti sektargreiðslur fyrirtækja aukist umtalsvert að því er segir í Morgunblaðinu.

Ritaði Aðalsteinn grein um nýja regluverkið en reglur ESB verða svo innleiddar í lok næsta árs eða byrjun árs 2019, og segir hann að það muni kalla á skipulagsbreytingar hjá fjármálafyrirtækjum og stofnunum til að koma enn frekar í veg fyrir miðlun innherjaupplýsinga.

„Hámarkssekt vegna brota af þessu tagi fer úr 50 milljónum í 800 milljónir eða 10% af veltu viðkomandi lögaðila,“ segir Aðalsteinn um breytingarnar á hámarkssektum sem Fjármálaeftirlitið hefur þegar gert. „Það eru gríðarlegar upphæðir og leiða má líkur að því að sektir í málum sem upp hafa komið á síðustu árum hefðu reynst mun hærri, hefði hækkun sektarheimildanna verið komin til fyrr.“

Nefnir Aðalsteinn tvö dæmi um sektargreiðslur sem hefðu getað orðið umtalsvert hærri ef ný sektarviðmið FME hefðu verið komnar í gildi. Annars vegar 30 milljón króna sektargreiðslu Arion banka vegna sölu bankans á hlut sínum í Högum á sama tíma og bankinn sá um sölu stórs hluthafa í fyrirtækinu til lífeyrissjóða. 

Hins vegar 18 milljón króna sektar Almenna lífeyrissjóðsins vegna kaupa starfsmann hans á skuldabréfum HS Veitna sem fengust á hagstæðum kjörum því ekki var búið að fara í gegnum fyrirhugaða sameiningu mismunandi skuldabréfaflokka.