Samkeppniseftirlitið hefur veitt leigubílastöðinni Hreyfli áframhaldandi heimild til útgáfu á hámarksökutöxtum fyrir bifreiðastjóra sem reka leigubifreiðar frá stöðinni.

Setur eftirlitið sem skyldu að taxtinn verði prentaður með stóru og auðlæsilegu letri á plastað spjald og það fest upp á áberandi stað í leigubifreiðinni.

Engir sérstakir hnökrar

Um langa hríð tóku leigubílstjórar hérlendis gjald fyrir akstur í samræmi við gildandi hámarksökutaxta, sem gefinn var út af Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra.

Í febrúar 2006 ákvað Samkeppniseftirlitið að hámarksökutaxtinn skyldi falla úr gildi og að þaðan í frá skyldi hverjum þeim sem ætti og ræki leigubíla að vera óheimilt að hafa með sér samstarf eða samskipti um ökutaxta eða önnur verðlagsmál.

Í framhaldinu veitti stofnunin þó nokkrar tímabundnar undanþágur til stöðva, m.a. til Hreyfils, BSR, Aðalbíla og Bifreiðastöð Hafnarfjarðar.

Í ákvörðuninni er tekið fram að á markaðssvæði því sem Hreyfill starfar eru fimm leigubílastöðvar og því grundvöllur fyrir verðsamkeppni. Hafi undanþágur á svæðinu verið í gildi um tveggja ára skeið.

„Á þeim tíma hefur Samkeppniseftirlitið fylgst með markaðnum og aflað upplýsinga í því skyni að meta að nýju samkeppnisstöðu á markaðnum og forsendur þeirra undanþágna sem veittar voru tímabundið. Fær Samkeppniseftirlitið ekki séð að orðið hafi vart við hnökra sem rekja megi til þeirra sérstaklega. Hafa taxtar leigubifreiðastöðvanna breyst á tímabilinu og hefur t.a.m. komið í ljós að stærstu stöðvarnar leggja ólíkar áherslur í verðlagningu sinni,” segir m.a. í ákvörðun stofnunarinnar.

Samkeppni ekki næg sökum gallaðra laga

Þá kemur fram að Hreyfill hefur 60-65% markaðshlutdeild, miðað við fjölda leigubíla sem stöðin þjónustar. Telur Samkeppniseftirlitið að úr ýmsu þurfi að bæta til að virk samkeppni fái þrifist á markaði þeim sem leigubílar og leigubílastöðvar starfa á.

Stofnunin telur að helsta ástæða þess að samkeppni fái ekki þrifist sem skyldi megi rekja til laga og annars regluverks sem gildir um akstur leigubifreiða hérlendis.