Ríflega þriðjungur eigna lífeyrissjóðanna er nú í erlendri mynt og hefur hlutfallið hækkað um 12% síðastliðinn fimm ár. Í lok apríl námu erlendar eignir um 34% af heildareignum lífeyrissjóðanna en það hlutfall var um 22% í ársbyrjun 2016. Þetta kemur fram í greiningu frá Íslandsbanka .

Undanfarna áratugi hefur stærsti hluti eignasafns lífeyrissjóðanna verið í formi útlána og markaðsskuldabréfa en hlutfall þessara eigna hefur þó farið lækkandi á undanförnum árum. Í ársbyrjun 2011 voru þessar eignir um 60% af heildareignum lífeyrissjóðanna en síðan þá hefur hlutfallið lækkað um 15% og er nú um 45% af heildareignum sjóðanna.

Eignasamsetning lífeyrissjóðanna að breytast

Árni Stefán Jónsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og jafnframt stærsta lífeyrissjóðs landsins, sagði nýverið að ríkisskuldabréf sem og aðrar sögulega öruggar fjárfestingar dygðu ekki lengur til þess að standa við viðmið um 3,5% raunávöxtun lífeyrissjóðanna. Hann benti jafnframt á að flestir sjóðirnir væru nú nálægt því að fullnýta hámarksviðmið um erlendar fjárfestingar.

Til marks um það hefur hlutfall hlutabréfa og erlendra eigna sjóðanna hækkað verulega undanfarin misseri. Erlendar eignir námu 2.039 milljörðum króna í lok apríl samanborið við 700 milljarða frá ársbyrjun 2016. Erlendar eignir lífeyrissjóðanna í krónum talið hafa því nærri þrefaldast á tímabilinu.

Sjóðirnir nálgast hratt hámarksviðmið um erlendar eignir

Samkvæmt núverandi lögum um lífeyrissjóði má að hámarki 50% heildareigna lífeyrissjóðanna vera í erlendum gjaldmiðli nema keyptar séu gjaldeyrisvarnir. Það eru hins vegar takmörk fyrir því með hversu miklu móti sjóðirnir geta varið þessar eignir þar sem að um mjög stórar upphæðir er að ræða. „Þetta getur sett sjóðina í snúna stöðu í ljósi þess að langstærstur hluti erlendra eigna þeirra er í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum. Þegar saman fer hröð hækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum og gengisveiking krónu, líkt og gerðist á síðasta ári, getur hlutfall erlendra eigna hækkað býsna hratt," segir í greiningu Íslandsbanka.

Í fjármálastöðugleika Seðlabankans frá apríl var sagt frá því að lífeyrissjóðirnir hefðu selt mikið af gjaldeyri í lok síðasta árs. Möguleg skýring sem var gefin var að lífeyrissjóðirnir væru komnir nálægt innri viðmiðum fyrir hlutfall erlendra eigna af heildareignum í ljósi þess að erlend hlutabréf hafa hækkað mikið undanfarin misseri.