Hamborgarhryggur verður á borðum hjá helmingi landsmanna á aðfangadagskvöld samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR . Aðrir algengir aðalréttir á aðfangadag hjá Íslendingum eru lambakjöt (annað en hamborgarhrygg), rjúpur og kalkúnn.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 50,4% ætla að borða hamborgarhrygg á aðfangadag, 10,7% sögðust ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt), 8,7% sögðust ætla að borða rjúpur, 8,5% sögðust ætla að borða kalkún, 4,5% sögðust ætla að borða svínakjöt (annað en hamborgarhrygg) og 17,2% sögðust ætla að borða eitthvað annað en fyrrgreinda kosti.

Lambakjöt nýtur meiri vinsælda sem aðalréttur á aðfangadag meðal stuðningsfólks Framsóknarflokksins en stuðningsfólks annarra flokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn sögðust 27,8% ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) sem aðalrétt að aðfangadag, borið saman við 7,4% Pírata.

Stuðningsfólk Vinstri-grænna sögðust frekar ætla að borða rjúpur sem aðalrétt á aðfangadag en stuðningsfólk annarra flokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Vinstri-græn sögðust 14,8% ætla að borða rjúpur á aðfangadag, borið saman við 3,9% Pírata.