Nærri helmingur landsmenn ætla að gæða sér á hamborgarhrygg á aðfangadag. Þeir eru þó færri sem ætla að snæða þessa hefðbundnu jólamáltíð í ár en í fyrra, samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR á því hvað verður á borðum um jólin. Kalkúnn nýtur þó meiri vinsælda á höfuðborgarsvæðinu þessi jólin en á landsbyggðinni. Stuðningsfólk Pírata skera sig nokkuð frá en það ætla að snæða eitthvað annað á aðfangadag en verður almennt á borðum landsmanna.

Fram kemur í niðurstöðum könnunar MMR að 47,5% þeirra sem þátt tóku í könnun MMR ætli að borga hamborgarhrygg á aðfangadag. Til samanburðar voru þeir 52,1% í fyrra. Þá ætla 11,7% að borða kalkún sem aðalrétt, 10% ætla að snæða annað lambakjöt en hangikjöt, 6,8% sögðust ætla að borða rjúpur, 4,9% sögðust ætla að borða svínakjöt annað en hamborgarhrygg og 19,1% sögðust ætla að borða eitthvað annað en fyrrgreinda kosti.

Píratar vilja eitthvað annað

Hamborgarhryggur er vinsælastur á meðal stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka. Hann var þó í sérstöku uppáhaldi hjá þeim sem styðja Framsóknarflokkinn eða 69,0%. Talsvert færri úr röðum Bjartrar framtíðar vilja hamborgarhrygg á diskinn sinn eða 36,3%. Píratar voru nokkuð sér á parti en af þeim sem tóku afstöðu og kváðust styðja Pírata sögðust 39,2% ætla að borða eitthvað annað en þá rétti sem nefndir voru í könnuninni.

Þá var nokkur munur á valinu eftir aldri og búsetu. Meirihluti yngsta aldurshópsins (18-29 ára) ætlar að hafa hamborgarhrygg á aðfangadag eða 53,5%, 48,2% í aldurshópnum 30-49 ára og 44,3% í aldurshópnum 50-67. Þá ætla aðeins 34,7% í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) að snæða hamborgarhrygg á aðfangadag.

Kalkúnninn vinsæll í borginni

Kalkúnn er vinsælli  á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en íbúa á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 15,3% þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu ætla að hafa kalkún sem aðalrétt á aðfangadag, borið saman við 6,1% þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni.

Í könnun MMR var spurt: „Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á aðfangadagskvöld?“ Svarmöguleikar voru: Fiskur/sjávarfang, gæs, grænmetisfæði, hangikjöt, hamborgarhryggur, hreindýrakjöt, kalkúnn, kjúklingur, lambakjöt (annað en hangikjöt)*, nautakjöt, rjúpur, svínakjöt (annað en hamborgarhryggur)**, önd, annað kjöt, annað og veit ekki/vil ekki svara. Samtals tóku 97,4% afstöðu til spurningarinnar.

Könnunin var gerð dagana 13,-17. desember og tóku 995 þátt í henni.