Íslensku bankarnir eru ekki þeir einu sem lent hafa í vandræðum en ekkert lát er á hörmungarfréttum af fjármálamörkuðum. Margir af stærstu bönkum heims hafa nánast verið í frjálsu falli á síðustu vikum og mánuðum. Bankar leiða hrun á hlutabréfamörkuðum vegna ótta fjárfesta um veikleika bankakerfa, og stjórnvöld keppast við að kynna nýja björgunarpakka.

Bandarísk, bresk og dönsk stjórnvöld eru meðal þeirra sem gera nú aðra tilraun til að bjarga bönkum sínum. Hundruðum milljarða hefur nú þegar verið dælt inn í fjármálakerfið en vandinn virðist meiri en búist var við.

Bank of America er gott dæmi, en bankinn greindi frá fyrsta tapi sínu í 18 ár í síðustu viku. Hann hefur nú fengið 45 milljarða dala stuðning frá bandaríska ríkinu. Sömu sögu er að segja af fleiri bönkum þar í landi, og eins í Bretlandi og Danmörku svo dæmi sé tekið.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag.