Evrópusambandið hyggst grípa til róttækra aðgerða til að tryggja að lönd innan efnahagssvæðisins verði bólusettir eins hratt og kostur er. Þetta var tilkynnt skömmu áður en lyfjaeftirlit sambandsins samþykkti markaðssetningu bóluefnis AstraZeneca við veirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.

ESB hefur verið gagnrýnt undanfarið fyrir að missa af lestinni hvað varðar að bólusetja þegna sína. Bandaríkin og Bretar, sem nýverið sögðu endanlega skilið við sambandið, hafa til að mynda náð að sprauta mun stærra hlutfall íbúa heldur en sambandið þrátt fyrir að stór hluti þegar samþykktra efna sé framleiddur í sambandsríkjunum.

„Vernd og öryggi borgara sambandsins er forgangsmál og áskoranirnar sem standa frammi fyrir okkur gefa okkur ekki aðra kosti en að grípa til aðgerða,“ sagði Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, við blaðamenn í Brussels en það er Bloomberg sem segir frá. „Þetta er kapp við klukkuna. Við getum ekki tapað tíma af því að pantanir okkar berast ekki á umsöndum tíma.“

Reglur sambandsins munu taka gildi á morgun og gilda út mars en þær heimila sambandinu að stöðva útflutning á bóluefni við farsóttinni hafi ákveðin skilyrði ekki verið uppfylt. Eitt meginskilyrðið er að áður en til útflutnings komi þurfi lyfjaframleiðendur að hafa skilað af sér bóluefni til sambandsins samkvæmt fyrirliggjandi samningum. Einhver ríki eru undanþegin þessum skilyrðum en Bretland, Kanada og Bandaríkin eru ekki þar á meðal.

Bannið hefur áhrif á bóluefni framleiðendanna AstraZeneca, Moderna og Pfizer/BioNtech en þau eru framleidd ýmist á Bretlandi eða meginlandi Evrópu. Bannið nú fylgir í kjölfar þess að AstraZeneca lýsti því yfir að félagið hefði í hyggju að dreifa bóluefni sínu fyrst á Bretlandi áður en félagið tæki til við að útdeila því í ESB.

Lögmæti aðgerða ESB liggur ekki fyrir en rök hafa verið færð fyrir því að þær kunni að brjóta gegn sáttmálum og meginreglum WTO. Þó er þar að finna undanþágur um að útflutningshömlur geti verið heimilar ef skortur á nauðsynjavöru kunni að ógna lífi og limum þegna.