Press Trust of India greindi frá því um helgina að Hamleys-leikfangaverslunarkeðjan muni opna verslun á Indlandi á næsta ári. Að sögn talsmanns Hamleys eru viðræður á byrjunarstigi en staðsetning hefur verið valin í Delhi, höfuðborg Indlands. Stjórnendur Hamleys sjá mikla vaxtarmöguleika á Asíumarkaði og mun fyrirtækið opna fyrstu sjálfstæðu verslun sína á erlendri grund í Dubai seinna á þessu ári. Fyrirtækið kannar einnig möguleika á opnun verslana í Kúvæt, Sádi-Arabíu og Kína.


Baugur keypti Hamleys árið 2003 fyrir 47 milljónir punda, en leikfangaverslunarkeðjan var stofnuð árið 1760 og hefur rekið verslun á Regent Street í London síðan árið 1881. Sem stendur eru einu verslanir Hamleys utan Bretlands í dönskum verslunarmiðstöðvum í eigu Baugs.