Leikfangaverslunin Hamleys, sem er í eigu Baugs áformar að opna tvær nýjar flaggskipsverslanir á Indlandi á næsta ári, aðra í Mumbai, hina í Nýju Delí.

Hamleys opnaði sína fyrstu verslun utan Evrópu í Amman, höfuðborg Jórdaníu, á dögunum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Baugs en þar segir að Reliance Retail Ltd, sem er hluti af stærstu fyrirtækjasamsteypu Indlands í einkaeigu, mun fjárfesta í útrás Hamleys verslananna í félagi við núverandi eigendur.

„Opnunin er hluti af alþjóðlegri útrás Hamleys en fyrirhugað er að opna nýjar verslanir bæði í Bretlandi og öðrum löndum á komandi árum,“ segir á vef Baugs.

Í október verður opnuð ný 3.200 fermetra verslun í Dubai Mall verslunarmiðstöðinni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá verður einnig hleypt af stokkunum fyrstu sjálfstæðu verslun Hamleys í Evrópu, sem staðsett verður í Dundrum Town Centre verslunarmiðstöðinni í Dublin.

„Í verslunum Hamleys á Indlandi verður endurskapaður hinn töfrandi heimur sem einkennir flaggskipsverslunina við Regent-stræti í London og rétt eins og í London mun hún leitast við að bjóða upp á fullkomna skemmtun fyrir alla fjölskylduna,“ segir á vef Baugs.

Til sölu verður úrval leikfanga, auk hinna „óvenjulega og sérviskulegu dóti sem einnig má finna í Hamleys,“ eins og það er orðað á vef Baugs.

Í versluninni verða leikfangasýningar og töframenn munu skemmta gestum og gæða leikföngin lífi. Í stuttu máli sagt eitthvað fyrir alla.

„Við hlökkum svo til að færa Indverjum töfraheim Hamleys, sem þegar hafa boðið okkur hjartanlega velkomna,“ segir Paul Currie, viðskiptastjóri Hamleys.

„Þetta er enn eitt skrefið af okkar hálfu til að gera Hamleys alþjóðlegra. Og ég er viss um, að indversk börn á öllum aldri, eiga eftir að skemmta sér konunglega í Hamleys.“