Ný Hamleys leikfangaverslun var opnuð í Dublin í gær. Verslunin er í Dundrum verslanamiðstöðinni í miðborginni og er á þremur hæðum. Í frétt á heimasíðu Baugs kemur fram að í versluninni verður endurskapaður sá heimur sem einkennir flaggskipsverslunina við Regent-stræti í London og rétt eins og í London mun hún bjóða upp á skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Um 60 manns starfa í verslunni.

Dundrum verslanamiðstöðin var opnuð með pompi og prakt í mars 2005. 15 verslanir og fyrirtæki voru þá í miðstöðinni. Þar á meðal voru House of Fraser, Harvey Nichols, H&M og Massimo Dutti. Síðan þá hafa 45 þúsund manns lagt leið sína í Dundrum, enda hefur verslanamiðstöðin hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars verið valin Barnvænsta verslanamiðstöðin og foreldrar hafa kosið hana Vinalegastu verslanamiðstöðina.

Að því er kemur fram í fréttinni þá verða til sölu úrval leikfanga, bæði þau nýjustu sem og sígild leikföng sem hafa kætt börn margra kynslóða, að ógleymdu hinu óvenjulega og sérviskulega dóti, sem einnig má finna í Hamleys. Í versluninni verða leikfangasýningar, töframenn sem skemmta gestum og á sérstöku svæði sem kallast fun2learn, eða leikur-að-læra, geta börn á leikskólaaldri fundið sitthvað við sitt hæfi. Að auki verður leikbrúðuland, bangsashorn með úrval uppstoppaðra dýra og veitingastaður með léttar veitingar. Þá verður boðið uppá andlitsmálningu á sérstökum stundum, ýmsir kunningjar barna koma í heimsókn og fjársjóðsleit.